Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 654  —  403. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum.

Flm.: Sturla Böðvarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kjartan Ólafsson,
Einar Már Sigurðarson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


1. gr.

    Við III. kafla laganna bætist ný grein, 10. gr., og breytist röð annarra greina samkvæmt því. Hin nýja grein ásamt fyrirsögn orðast svo:

Aðstoðarmenn alþingismanna.

    Alþingismanni er heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur og veitt er fé til á fjárlögum hvers árs.
    Laun aðstoðarmanns skulu fylgja þingfararkaupi hverju sinni og vera tilgreint hlutfall þess. Forsætisnefnd Alþingis setur reglur um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna.
    Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim gilda ekki um aðstoðarmenn alþingismanna. Þá gilda ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, ekki um aðstoðarmenn alþingismanna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sem lagt var fram á Alþingi fyrr á þessu þingi, 28. nóvember 2007, var gert samkomulag á milli þingflokkanna, sem að því stóðu, um að bæta starfsaðstöðu þingmanna, ekki síst stjórnarandstöðuþingmanna, með ýmsum ráðum. Samkomulag náðist m.a. um að formenn stjórnarandstöðuflokka, sem jafnframt eru alþingismenn, og þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma fái aðstoðarmenn. Þá náðist einnig samkomulag um að auka aðstoð við minni hluta í nefndum, efla eftirlitshlutverk nefnda og að auka alþjóðasamstarf þingmanna, jafnframt því að bæta aðstöðu þingflokka. Frá því að frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi 14. desember sl. hefur útfærsla á samkomulaginu verið til athugunar á vegum forseta Alþingis, formanna þingflokka og í forsætisnefnd Alþingis.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Breytingarnar taka til hluta þess samkomulags sem gert var samhliða breytingum á þingsköpum Alþingis í lok síðasta árs. Í fyrsta lagi er lagt til að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur og veitt er fé til á fjárlögum hvers árs. Í upphafi er gert ráð fyrir að formenn stjórnmálaflokka eigi rétt á að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf, en þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma eigi rétt á að hafa aðstoðarmann í hlutastarfi. Laun aðstoðarmanns skulu fylgja þingfararkaupi og vera ákveðið hlutfall af því.
    Í reglunum, sem forsætisnefnd er ætlað að setja, skal fjallað um ráðningar aðstoðarmanna og hvernig staðið verður að þeim. Gert er ráð fyrir að hægt verði að ráða í störfin án auglýsingar, a.m.k. verði það ekki skylt. Alþingismaður, sem á rétt á að ráða sér aðstoðarmann, gerir skriflegan ráðningarsamning við aðstoðarmanninn en skrifstofa Alþingis áritar samninginn og kemur honum til framkvæmda í umboði alþingismanns. Óheimilt verður að ráða sem aðstoðarmann náið skyldmenni alþingismanns. Laun aðstoðarmanna verði föst tala sem hlutfall af þingfararkaupi alþingismanna. Kjararáð ákveður þingfararkaup samkvæmt þeim lögum sem um ráðið gilda. Alþingismaður setur aðstoðarmanni síðan fyrir verkefni og stjórnar starfi hans.
    Í öðru lagi er með frumvarpi þessu lagt til að forsætisnefnd Alþingis setji reglur um starfskjör og starfsaðstöðu aðstoðarmanna. Aðstoðarmenn alþingismanna, sem jafnframt eru formenn stjórnmálaflokka, munu hafa skrifstofu í húsakynnum Alþingis og fá alla almenna skrifstofuþjónustu eins og starfsmenn þingsins. Aðrir aðstoðarmenn alþingismanna munu hafa aðstöðu í kjördæmunum. Aðstoðarmenn þingmanna fá, auk fastra launa, greiðslu á móti kostnaði við ferðir, farsíma og annan rekstur. Útlagður kostnaður verður endurgreiddur samkvæmt framlögðum reikningum. Forsætisnefnd Alþingis setur nánari reglur um framkvæmd greiðslna samkvæmt frumvarpi þessu.
    Skrifstofa Alþingis mun veita aðstoðarmönnum þá þjónustu sem alþingismenn fá eftir því sem við á, þar á meðal frá upplýsinga- og rannsóknarþjónustu skrifstofunnar og leiðbeiningar um tölvunotkun. Skrifstofustjóri sker úr álitamálum sem rísa kunna um þessi efni.
    Í þriðja lagi er lagt til að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur settar samkvæmt þeim gildi ekki um aðstoðarmenn alþingismanna. Er það gert m.a. til þess að hægt verði að ráða í störfin án auglýsingar. Þá er lagt til að 5. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, gildi ekki um aðstoðamenn alþingismanna. Samkvæmt greininni skal tímabundinn ráðningarsamningur almennt ekki vara lengur en tvö ár nema annað sé ákveðið með lögum.
    Forsætisnefnd Alþingis hefur nú þegar, með fyrirvara um að frumvarp þetta nái fram að ganga, samþykkt fyrir sitt leyti reglur sem fjalla um aðstoðarmenn alþingismanna, starfskjör og starfsaðstöðu þeirra. Reglurnar taka mið af áðurnefndu samkomulagi þingflokkanna.
    Fyrirhugað er að aðstoðarmenn verði ráðnir frá 1. mars 2008.